Staðfesting á því að vera lifandi.

Fyrir nokkrum dögum las ég viðtal við ungann mann hér í Danmörku sem tekið var í tilefni af því að var að gefa út sína fyrstu skáldsögu. Stór hluti viðtalsins var hinsvegar ekki um skáldsöguna heldur að hann hefði verið í neyslu fíkniefna í ein tíu ár á unglingsaldri. Að eigin sögn kom hann frá ósköp venjulegri kjarnafjölskyldu, þar sem gildi samfélagsins voru í heiðri höfð og hafði eins og flest ungmenni nú til dags, allt til alls. En þetta var bara allt hundleiðinlegt og  ásæða þess að hann byrjaði í neyslu.  Hann taldi sig, og mörg önnur ungmenni þurfa staðfestingu á því að þau væru lifandi. Eðlilegur hjartasláttur og normal andardráttur var ekki nóg. Hann meinti að hann hefði þurft að finna hjartað banka af krafti og virkilega finna fyrir því að hann drægi andann. - Vera á ystu nöf. Sem betur fer náði þessi ungi maður að komast út úr neyslunni og gengur fínt í hinu venjulega daglega lífi í dag. 

Ég er búin að hugsa töluvert um þetta viðtal og velta fyrir mér þessari setningu "ég hafði allt til alls. En þetta var bara hundleiðinlegt" Þegar ég lít til baka til unglingsáranna meina ég að ég hafi haft allt til alls, en vissulega fékk ég ekki allt samstundis og sumu mátti ég auðvitað vinna fyrir sjálf. -Ég fékk að upplifa að láta mig langa eitthvað í langan tíma og síðan upplifa  gleðina við að ná takmarkinu. - Fyrir þetta er ég ósköp þakklát.

Mitt motto í lífinu hefur verið verið byggt á breskum  ljóðlínum sem hljóða einhvernvegin svona á íslensku :

Haltu fast í drauma þína

því ef draumarnir deyja

verður lífið eins og hjá vængbrotnum fugli

sem ekki getur flogið.  

...Kannski er það vandamálið. Við leyfum unga fólkinu okkar ekki að dreyma og láta sig langa og síðan í framhaldinu að upplifa gleðina af því að eignast hlutina eða ná settu markmiði. - Við reddum þessu fyrir þau strax.

...Og þess vegna upplifa sum þeirra sig kannski eins og vængbrotna fugla og fara sífellt öfgafyllri leiðir til að fá staðfestingu á að þau séu lifandi.

 


Yndislegur gráveðursdagur

Þegar ég vaknaði í morgun buldi regnið á rúðunni og ég ákvað að þetta væri ekki dagur til að fara snemma á fætur, dró sængina lengra upp fyrir höfuð og ákvað að sofa til hádegis. Stuttu síðar vaknaði ég samt aftur ómöguleg yfir að geta ekki sofið lengur því svona grámygludagar væru hundleiðinlegir og niðurdrepandi. Angry

Ég druslaðist samt á fætur og ávað að líklega yrði ég að hundskast í gang með að lesa eitthvað enda farið að styttast í próf. Um leið og ég var að klæða mig leit ég á dagatalið, sem góð vinkona mín gaf mér þegar hún var hér í heimsókn, það breytti deginum. Þar stóð: "margir trúa að eitthvað sé ómögulegt en allar framfarir hafa orðið fyrir tilstillan þeirra sem trúa hinu gagnstæða". Þetta er svo rétt, jákvætt hugarfar breytir öllu.

Ég leit því aftur út um gluggann og sá allt annað veður en fyrr um morguninn. Fallegt gráveður þar sem regndroparnir dönsuðu á trjágreinunum og hugsaði til þess hvað mörg börn í leikskólum landsins ættu eftir að skemmta sér vel við að hoppa í pollunum í dag. Ég veit allavega fátt skemmtilegra en að hoppa með kátum krökkum í almennilegum drullupolli. Grin

Við þessar hugsanir kom orkan og ég settist ég við lesturinn, sannfærð um að mér gangi allt í haginn og prófið verði auðvitað ekkert vandamál.   

Maður hefur alltaf val... og jákvæða leiðin skilar alltaf betri árangri.


"Ég hrædd um að þetta sé að deyja út "

Í gærkvöldi sátum við Víkingur sem oftar að tali við eldri dóttur okkar. Hún var að segja okkur frá því að kennarinn sinn hefði spurt sig að því afhverju hún héldi að svona margir íslendingar næðu svona langt. - "Hvað meinarðu spurði hún - þetta með að þeir séu að kaupa upp fasteignir og fyrirtæki hér í Danmörku?" ( sem fyrir sumum dönum er ansi viðkvæmt umræðuefni) Nei bara svona almennt í því sem þið takið ykkur fyrir hendur svaraði kennarinn og vitnaði í handboltalandsliðið, Björk, Sigurrós og fl. Dóttir mín sagðist hafa svarað því til að við íslendingar værum alin öðruvísi upp en Danir. Við værum alin upp á þann hátt, að við fengjum ekkert upp í hendurnar og að maður þyrfti að vinna fyrir hlutunum. Við hefðum ekki SU og bistand að sama skapi og Danir. - Það væri ekki talið sjálfsagt að ríkið æli önn fyrir okkur. Og svo væru íslendingar mikið keppnisfólk - allir væru í keppni við alla á Íslandi. Eftir á sagðist hún svo hafa hugsað "en ég er hrædd um að þetta sé samt að deyja út."

Íslendingar eru ekki hættir að vera í keppni við allt og alla. Það er ríkt í þjóðarsálinni að gera betur en nágranninn - eiga stærri jeppa, flottara hjólhýsi og skjóta upp flottari bombum á Gamlárskvöld. Það má svo deila um það hvort þetta sé heilbrigður drifkraftur eða ekki.

Eftir vangaveltur okkar vorum  við þó á þeirri skoðun að þegar kemur að uppeldi á ungdómnum sé kannski farið að halla eilítið undan fæti.  Við veltum því fyrir okkur hvort allt of mörg ungmenni alist upp við alltof mikið frjálsræði og að þurfa ekkert að hafa fyrir lífinu, -  fái allt upp í hendurnar, playstation, gemsa, fartölvu, heimabíó, mótorhjól, bíl, o.s.frv - og það sem verra er að þau séu svipt allri ábyrgð á eigin lífi.  

Vissulega eru mörg ungmenni að vinna með skólanum og spurning hvort það sé af hinu góða.  Öll þessi vinna, - hjá mörgum, er hinsvegar ekki til að ala önn fyrir sér eða kaupum á skólabókum því mamma og pabbi sjá um það - heldur er vinnan fyrir jammi og flottheitum. 

Spurningin er svo hvort að við í framtíðinni fáum út á vinnumarkaðinn fordekraðar háskólamenntaðar prinsessur og prinsa sem þurfa himinháar summur í byrjunarlaun, enga þolinmæði hafa til að vinna sig upp og engan skilning hafa á ábyrgð og að það þarf að hafa fyrir hlutunum til að þeir gangi. 

Kannski er þetta of svartmálað en það er vert að velta þessu fyrir sér

 


Lífið var framundan

Hér í danaveldi er um fátt annað talað þessa dagana en að banna hnífaburð. Og þeirri tillögu er ég algerlega fylgjandi.

Umræðan fór alvarlega í gang eftir drapið á ungum manni sl. helgi.  Hann var á gangi á Strikinu eftir að hafa verið að skemmta sér þegar að honum svifu þrír ungir menn, hæfilega hífaðir og heimtuðu húfuna hans. Hann brást að eðlilega við með að segja nei og skipti þá engum togum - hann var stunginn með hníf og lét lífið.

Maður spyr sig - hvað eru menn að hugsa sem ganga með hnífa á sér - hverslags tíska er þetta eiginlega - við lifum jú ekki í veiðimannasamfélagi eins og einn pólitíkusinn hérna orðaði það.

Ég er sannfærð um að það hefur ekki verið ætlan þessara ungu drengja þegar þeir fóru að heima að myrða einhvern þetta kvöld, en í dag sitja þeir innilokaðir í fangelsi með mannslíf á samviskunni - og ör á sálinni sem aldrei hverfur.

Aðstendendur sitja sorgmæddir og hnípnir eftir með endalausar spurningar en eigin engin svör. Mín samúð er með foreldrum og aðstandendum allra þessara drengja, ekki síður foreldrum "árasardrengja" en þess sem lést.  Þessar fjölskyldur hafa allar mist syni sína. 

   


blogpása

Ástæða þess að ég opna þessa síðu má rekja til vinkonu minnar Katrínar Baldursdóttur og fleiri blogara á mbl.is Ég var semsagt að skoða síðuna hennar og sérstaklega listaverkin sem hún gerir og ætlaði að setja inn athugasemd. - Hrós Smile - en gat það ekki vegna þess að hún, eins og margir aðrir eru með síðuna sína þannig stillta að maður verður að vera skráður notandi til að vera með.

Það var því ekki annað að gera en að srá sig inn og hamra í framhaldinu svolítið á lyklaborðið. Svo á eftir að koma í ljós hversu duglegur maður verður. Ég hef nú reyndar blogað öðru hverju á blog.cenral en fengið skammir fyrir að það líði of langt á milli hjá mér. Kannski ég standi mig betur á nýju ári. Smile Eru menn ekki altaf svo bjartsýnir í upphafi nýs árs.

Ég ætti náttúrulega að vera að lesa þessa stundina og undirbúa mig fyrir próf en varð bara að taka mér smá pásu. Ekki getur maður hætt á að lesa yfir sig - Klassísk afsökun ekki satt.  Jæja en hún dugir víst ekki mikið lengur þar sem ég er búin að kjafta af mér - best að koma sér aftur að verki.   


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband