Færsluflokkur: Bloggar
14.3.2008 | 08:20
Það er nú orðið ansi langt síðan....
já það er svo sem rétt sem mér hefur verið bent á að ég hafi ekki látið heyra frá mér lengi. Það er því ráð að setjast niður núna og hripa nokkrar línur enda ég ekki í stuði fyrir lestur þessa stundina.
Það hefur annars verið mjög mikið að gera frá því við stelpurnar áttum hérna hreint frábæra helgi og drengir voru í miklu stuði uppi á íslandi.
Það verður ekki farið út í djúpa innihaldslýsingu á athöfnum okkar hér enda er það varla hæft á prenti en ég get fullyrt að þeir sem ekki hafa haft tækifæri til að upplifa svona stelpu- og strákafjör eru að missa af miklu.
Nú annars er það helst af frétta af okkur að Sigrún er tímabundið flutt heim til okkar meðan hún býður eftir að finna sér nýjan samastað í miðbænum. - Ekki alveg eins einfalt verkefni og það lítur út fyrir að vera, - sérstaklega þegar haft er í huga að hún nánast vill búa á Strikinu. Okkur finnst hinsvegar bara notalegt að hún og Loftur láti sér líða vel hérna hjá okkur og liggur ekkert á að þau fari aftur.
Rósa er að komast á skrið í sundinu aftur eftir frekar erfiðan tíma með stanslausum pestum. Segist vera í "matarherbúðum" hjá mömmu sinni og grettir sig á köflum, en innst inni held ég nú að henni þyki ekki svo slæmt að láta mömmu stjana þetta í kringum sig.
Ég hef haft mjög mikið að gera í skólanum upp á síðkastið er að vinna að tveimur verkefnum um skólamál á íslandi. Annað er um samvinnu leik- og grunnskólakennara og hitt um frumvarp til laga um ráðningu og menntun kennara.
Ég hef því legið yfir umsögnum um frumvarðið, umræðunum og öllu sem ég hef getað fundið um það að undanförnu og hefur það verið mjög svo athygliverð lesning. Mínar persónulegu skoðanir væru efni í langan pistil en ég ætla að einbeita mér að verkefninu í skólanum og láta duga að skella inn athugasemdum á blogg annarra um þetta mál. Þó vil ég ítreka að mér finnst ekki koma til greina að menntun leikskólakennara einna verði skilin eftir á B.ed stiginu - þar er ég innilega sammála Kristínu Dýrfjörð og auk þess er það engan vegin í samræmi við þær auknu kröfur og áherslu sem lögð er á menntun yngstu barnanna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2008 | 10:45
Stelpu- og stráka fjör....
Anna, Sigga Maja, Katrín, Bára, Björg, Guðrún Hrefna og Guðrún Árna eru ekki bara einhver nöfn út í bláinn. Á bak við þessi nöfn eru eldhressar konur sem tengjast órjúfanlegum vináttuböndum.
Veturinn 1970 - 71 byrjaði þessi hópur kátra stúlkna ásamt fleira góðu fólki í 7 ára bekk hjá Dóru Péturs. í Öldutúnsskóla. Við urðum fljótlega vinkonur og höfum brallað ýmislegt saman í gegnum tíðna sem ekki allt er hæft á prenti en oft hefur verið rifjað upp og kitlað hláturtaugarnar hressilega.
Nú um helgina er einmitt ein slík samverustund í vændum. Því miður komast ekki allar vinkonurnar hingað til Köben að þessu sinni og verður þeirra sárt saknað. - En Ok. stelpur en við hinar drekkum bara ykkar rauðvínsskamt og þið verðið þannig með okkur í andanum. Við tökum síðan fullt af myndum og tölum oft og mikið um fjörið hjá okkur þannig að þegar fram líða stundir þá upplifið þið þetta eins og þið hafið verið með í fjörinu.
- Við þessar ungu og bráðhressu stelpur erum semsagt búnar að vera vinkonur í næstum fjörtíu ár - Oh... hvað ég hlakka til að hitta ykkur í kvöld.
Viggo er svo sem ekki síður spenntur fyrir helginni þó ekki fái hann að eyða henni með þessum föngulega hópi kvenna. Hann er á leið í strákaferð í sveitina á Íslandi og hann er sannfærður um að ekki verði fjörið minna hjá þeim. Undirbúningur þessarar ferðar hefur enda staðið yfir í langan tíma og eru menn búnir að gera plön og varaplön svo ekkert á að geta skyggt á strákslega gleði þeirra.
Sem sagt frábær helgi framundan hjá okkur hjónum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.2.2008 | 21:00
Tæknin að ergja mig, unglingar sem leiðist..... og Valdísar-dagurinn
Í dag skrifaði ég hér pistil um aumingja blessuð ungmennin hér í Danaveldi sem dauðleiðist alla daga. Leiðinn stafa af því þau hafa ekkert Ungdómshús og því eðlilega ekkert að gera. Þá er ekki annað til ráða en að hendast út á Nørrebro brjóta nokkrar rúður, kveikja í ruslagámum og nokkrum bílum og auðvitað henda múrsteinum og öðru lauslegu drasli í lögregluna sem ekki á betra skilið enda er hún í fullu stafi við að bögga blessuð ungmennin að mati margra.
Ekki vildi betur til en svo að þegar ég ætlaði að vista þetta og birta þá greip tæknin inni í málin og ég missti allt út. Líklega hef ég verið eitthvað gróf á því, og máttarvöldin gripið inni í.
Ég ætla því að venda mínu kvæði í kross núna, láta það gjörsamlega eiga sig að tjá mig frekar um lætin á Nørrebro eða morðhótanir í garð teiknara Jyllandsposten og heldur senda ástarkveðjur til ykkar allra á Valent....eða Valdísar deginum eins og hann heitir á þessu heimili
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2008 | 10:39
Foreldrar "svona skemmtileg -lætur mann hugsa mynd"
Mynd Ragnars Bragasonar Foreldrar var sýnd hér í Köben í gærkvöldi og ákváðum við fjölskyldan að skella okur og sjá myndina. Það er skemmst frá því að segja að myndin er stórgóð.Skemmtileg og raunsönn lýsing á lífinu og tilverunni heima á Íslandi. Rósa lýsti myndinni á eftirfarandi hátt "ekki bara skemmtileg - skemmtileg heldur svona skemmtileg -lætur mann hugsa mynd". Eftir sýninguna sat (stóð) svo leikstjórinn fyrir svörum og var sérlega gaman að heyra hann lýsa ferlinu og vinnunni við gerð myndarinnar. Einlægur og hreinskilinn karakter, greinilega með mikinn metnað og húmor að mínu skapi.
Skora á þá sem ekki hafa séð þessa stórgóðu mynd að sjá hana. Sjálf hef ég ekki séð Börn og nú verð ég bara að komast til að sjá þá mynd líka.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.2.2008 | 12:06
Vor í lofti
Það var dásamlegt að vakna í morgun við dansandi sólargeysla á andlitinu.
Vorið er á næsta leyti og ég er komin í "Blóma-Dísu" gírinn. Ákvað að láta lestur eiga sig í dag. Það er enda rétti tíminn núna til að hendast út í garð, klippa sprotana á Bláregninu og byrja slagsmálin við arfann svo hann taki ekki yfirhöndina í sumar. Það er reyndar svolítið kalt ennþá enn ekki verra en marga sumardagana hjá "Blóma-Dísu" þegar maður lá á hnjánum á Strangötunni eða upp í Hellisgerði og slóst við arfann. Sé það alltaf betur og betur hvað ég var heppin að hafa fengið vinnu í "Blómafokknum" á sínum tíma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.2.2008 | 11:07
Fjögur ár í heimsendi......
Nyhedsavisen upplýsti mig um það í dag að samkvæmt spádómum Maya indíána eru bara fjögur ár í heimsendi - hrun jarðarinnar. Það er því spurning hvort maður eigi að vera að rembast við að mennta sig, mæta til vinnu eða yfirhöfuð hugsa um einhverja framtíð þegar þetta er allt á leið til hel..... hvort eð er.
Kannski maður ætti bara að taka sig til og djamma svolítið, flækjast um heiminn og reyna að sjá sem mest af honum á meðan færi gefst. En svo varð mér hugsað til þess hversu oft heimsendirinn er búinn að vera á dagskránni frá því ég kom í þennan heim og það er ekki svo sjaldan. Þegar ég var fjögra ára átti þessu öllu að ljúka, aftur þegar ég var tólf, enn aftur þegar ég var í kringum þrítugt og enn nú einu sinni eftir fjögur ár. Því skyldi ég því ekki ná að verða hundrað ára - búin að lifa af alla þessa heimsenda spádóma ?
Fyrir utan þetta hefur maður gegnum tíðina verið reglulega minntur á það af sér eldra fólki að heimurinn sé á hraðri leið til hel..... unga fólkið í dag beri enga virðingu fyrir hlutunum og komi ekki til með að geta stýrt skútunni heldur komi til að sigla henni beina leið til ands......
Engu að síður hef ég séð margt af þessu unga fólki sigla skútunni og flestir með þokkalegum árangri - þó sumir hafi eðlilega staðið sig betur en aðrir. Þetta er alltaf spurning um hvernig maður skilgreinir hlutina.
Það er samt rétt að pólar sólarinnar flytjast til í kringum árið 2012 en það þýðir þó ekki heimsendir eða hrun jarðar, enda gerist það á ca. 11 ára fresti bendir Anja Andersen frá Kaupmannahafnarháskóla á og bætir við að síðast þegar það gerðist þá hafi Anders Fough Rasmussen komist til valda hér í Danmörku og fyrir sumum hafi það verið til marks um hrun jarðarinnar.
Við erum þó ennþá uppistandandi og ýmis teikn á lofti um breytt landslag í pólitíkinni. Ég held því bara áfram mínum framtíðarplönum glöð og sæl. Geri aðeins þær kröfur að við ölum ugna fólkið okkar upp með þeim hætti að það geti séð um að sigla skútnni í framtíðinni af skynsemi. Ábyrgðin liggur nefnilega hjá okkur en ekki unga fólkinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 17:57
Skipulag - tónleikar og bollur
Eftir langa pásu frá hefðbundnum skóladögum var hafist handa í á nýjan leik í dag. Framundan er því að snúa sólarhringnum aftur í eðlilegt horf og koma sér upp rútínu við lesturinn, þar sem ráð er gert fyrir svefn og matmálstímum á nokkurn veginn hefðbundnum tímum þ.e eins og hjá flestu venjulegu vinnandi fólki. Reyndar verða kvöldmatartímarnir á þessu heimili hér eftir sem hingað til rokkandi, - allt eftir æfingatöflu sunddrottningarinnar á heimilinu.
Um helgina var staðið í ströngu, "Árnastofu" var breytt í vinnuherbergi fyrir frúnna, Matti og Guðrún drógu okkur með sér á tónleika og auðvitað voru bakaðar ekta rjómabollur í tilefni bolludags.
Tónleikarnir voru frábærir.
Ég verð nú að játa það að þegar Matti hringi í mig vissi ég ekkert um hvern hann var að tala, þegar hann spurði hvort við hefðum ekki áhuga á að fara á Mugison tónleikana - sagðist skyldi nefna það við Viggo og hafa svo samband. Víkingur var sem betur fer betur að sér í tónlistinni en ég sem aldrei man hvað nokkurt lag, hljómsveit eða tónlistarmenn heita... er í æ þú veist lagið þarna la..la...la..lala deildinni og mundi svo auðvitað ekki nafnið bara Mo...eða Mug..eitthvað. Hann kveikti sem betur fer á perunni og við ákváðum að skella okkur og því sé ég ekki eftir. Strákarnir fóru á kostum og ég var hreinlega heilluð af kraftinum, húmornum og orkunni í þeim. Mæli enda með að gamlingjar á mínum aldri sem ekki hafa uppgötvað þessa ungu menn taki sig til og hlusti á þá.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2008 | 13:23
Það er ekki bara hamagangur í Íslenskri pólitík...
Nú þegar maður er í pásu frá skólabókunum og gefst tími til að lesa eitthvað annað opnar maður varla blöðin án þess að lesa um pólitíkusa sem farið hafa í fýlu og yfirgefið flokk sinn. - Já það er ekki bara hamagnagur í Íslenskri pólitík.
Nýjasta dæmið hér í DK er að Gitte Seeberg einn af stofnendum Ny Alliance, (flokks sem oftast er kenndur við Naser Khader og all nokkrir hafa reyndar flúið úr), sagði sig úr flokknum af því hann er ekki nógu mikið á miðjunni. - Hefur færst og mikið til hægri að hennar mati.
Ég hugsaði nú bara þegar ég las þessa frétt í morgun ..æ ..aumingja konan ....þvílíkur misskilningur.... hún hefur skilið málflutning flokksins á einhvern allt annan hátt en ég.... eða kannski verið svo upptekin af eigin þankagangi og draumum um þennan nýja flokk að hún hafi ekki hlustað á málflutning annarra samflokksmanna sinna. Vissulega hefur hún lýst því yfir að hún vilji geta spilað til hægri og vinstri en jafnframt benti hún á Fogh sem forætisráðherra, sem er HÆGRI maður fram í fingurgóma þó flokkur hans heiti því skemmtilega nafni Venstre. Fyrir mér og mörgum öðrum hefur þetta heldur ekki verið neitt vafamál, Ny Alliance hefur nánast frá upphafi skilgreindt sig sem borgaralegan flokk og málflutningur þeirra legið vel inni á á hægri vængnum.
En svona fyrir utan það er mér ómögulegt að skilja hvernig pólitískur flokkur ætlar að spila bæði til hægri og vinstri og komast hjá því að vera skilgreindur ýmist of mikið til hægri eða of mikið til vinstri allt eftir því hvort í hlut eiga hægri eða vinstri menn. En það er kannski ekkert að marka - ég skil ekki svona hvorki/né pólitík.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.1.2008 | 12:19
Þungu fargi af frúnni létt
Það er með ólíkindum hvað það var mikill létir að hafa lokið þessu fyrsta munnlega prófi mínu og vel að merkja staðist það með ágætum - verð náttúrulega að monta mig pínulítið.
Nú er framundan vikufrí áður en næsta törn hefst og hef ég hugsað mér að haga mér eins og Dönsku gulldrengirnir - gera nákvæmlega ekki neitt annað en að slappa af, njóta þess að vera með fjölskyldunni og hafa komist í gegnum þessa þrekraun án þess að tapa glórunni endanlega.
Ég er nefnilega sannfærð um að það var næstum jafnmikil líkamleg og andleg áreynsla fyrir mig að fara i munnlegt próf - eins og það var fyrir strákana að sækja heim EM-Gullið..... Ok - kannski smá ýkjur en þetta var samt ótrúlega erfitt (átröskun, sviti og svefnlausar nætur) og ég ætla semsagt bara að njóta þess að vera með dönsku þjóðinni í sigurvímu.
Vel að merkja voru Danir vel að gullinu komnir, spiluðu ótrúlega vel í keppninni og Kasper Hvit markmaður hreint einstakur. Til hamingju Danir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2008 | 11:12
Nú er það svart ...
í gær dag sat ég sem og alla undangenga daga ein heima við lestur, þar sem framundan er próf. Þetta er ósköp einmannaleg iðja og jafnvel þó efnið sé áhugavert þá kemur að þeim tímapunkti að maður er við það að gefast upp á þessu öllu saman og finna sé eitthvað annað að gera.(Eins og t.d núna að blogga) Ég hef t.d upplifað það að finnast áhugaverðara að sísla með óhreina þvottinn, þrífa salernið og svona eitt og annað þess háttar.
Í gær sló ég þó allt út að mati eiginmannsins. Ég er ekki sú verslunarglaðasta persóna sem þekkist og maðurinn minn lýsir mér þannig að eftir smástund í verslunarleiðöngrum verði ég svona tóm og ráfi sinnulaust um og viti hreinlega ekki hvort ég er að koma eða fara.
En þannig var að í gær höfðum við ráðgert að hann skryppi í IKEA til að sækja lítinn skáp sem fara átti í herbergi dótturinnar eftir vinnu. Hann var heldur seinn fyrir og varð því aðkoma heim fyrst til að skutla dóttur okkar í veislu sem hún var að fara í. því næst ætlaði hann að koma við hér heima aftur. Þegar hann svo kom, segi ég við hann "eigum við ekki að drífa okkur af stað í IKEA". Hann svarar því til að hann nenni ekki og komi bara við þar á morgun á leið heim úr vinnu. Ég fór hreinlega í fýlu og sagði "hvað er að þér maður mig er búið að hlakka til í allan dag". Maðurinn minn leit á mig og það mátti lesa úr andlitinu á honum nú er það svart - hún er endanlega að tapa glórunni.
Það er eins gott að ekki er langt í prófið, svo líklega slepp ég fyrir horn og held glórunni - allavega svona nokkurn veginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)