14.1.2008 | 22:23
Staðfesting á því að vera lifandi.
Fyrir nokkrum dögum las ég viðtal við ungann mann hér í Danmörku sem tekið var í tilefni af því að var að gefa út sína fyrstu skáldsögu. Stór hluti viðtalsins var hinsvegar ekki um skáldsöguna heldur að hann hefði verið í neyslu fíkniefna í ein tíu ár á unglingsaldri. Að eigin sögn kom hann frá ósköp venjulegri kjarnafjölskyldu, þar sem gildi samfélagsins voru í heiðri höfð og hafði eins og flest ungmenni nú til dags, allt til alls. En þetta var bara allt hundleiðinlegt og ásæða þess að hann byrjaði í neyslu. Hann taldi sig, og mörg önnur ungmenni þurfa staðfestingu á því að þau væru lifandi. Eðlilegur hjartasláttur og normal andardráttur var ekki nóg. Hann meinti að hann hefði þurft að finna hjartað banka af krafti og virkilega finna fyrir því að hann drægi andann. - Vera á ystu nöf. Sem betur fer náði þessi ungi maður að komast út úr neyslunni og gengur fínt í hinu venjulega daglega lífi í dag.
Ég er búin að hugsa töluvert um þetta viðtal og velta fyrir mér þessari setningu "ég hafði allt til alls. En þetta var bara hundleiðinlegt" Þegar ég lít til baka til unglingsáranna meina ég að ég hafi haft allt til alls, en vissulega fékk ég ekki allt samstundis og sumu mátti ég auðvitað vinna fyrir sjálf. -Ég fékk að upplifa að láta mig langa eitthvað í langan tíma og síðan upplifa gleðina við að ná takmarkinu. - Fyrir þetta er ég ósköp þakklát.
Mitt motto í lífinu hefur verið verið byggt á breskum ljóðlínum sem hljóða einhvernvegin svona á íslensku :
Haltu fast í drauma þína
því ef draumarnir deyja
verður lífið eins og hjá vængbrotnum fugli
sem ekki getur flogið.
...Kannski er það vandamálið. Við leyfum unga fólkinu okkar ekki að dreyma og láta sig langa og síðan í framhaldinu að upplifa gleðina af því að eignast hlutina eða ná settu markmiði. - Við reddum þessu fyrir þau strax.
...Og þess vegna upplifa sum þeirra sig kannski eins og vængbrotna fugla og fara sífellt öfgafyllri leiðir til að fá staðfestingu á að þau séu lifandi.
Athugasemdir
skemmtileg hugleiðing og það er svooo mikið til í þessu........ það er hættulegt að fá nánast allt upp í hendurnar....... "þurfa ekki að berjast fyrir neinu"........ ég las grein í blaði um daginn sem fjallaði um vinnumarkaðinn hér heima..... þar velti greinahöfundur fyrir sér vinnusiðferði ungs fólks á Íslandi,.... fólks sem aldrei hefur upplifað atvinnuleysi og getur mjög auðveldlega hætt í einni vinnu, (án þess að segja upp og vinna uppsagnarfrestinn), og byrjað strax í annarri vinnu.... jafnvel látið sig hverfa af vinnustað án þess að gera grein fyrir sér...... en gengið samt strax....og nánast samdægurs í vinnu annarsstaðar ...og jafnvel hjá keppinautnum....líta á vinnuna sem sjálfsagðan hlut og telja sig ekki hafa neinum skyldum að gegna gagnvart vinnuveitandanum....... "skerí...".......
Fanney Björg Karlsdóttir, 16.1.2008 kl. 17:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.